MEÐLIMIR ELJU

member2.jpg
member3.jpg
member4.jpg
member5.jpg
member 6.jpg
member7.jpg
member8.jpeg
member10.jpg
member11.jpg
member12.jpeg
member13.jpg
member14.jpg
member15.jpg
member16.jpg
member17.jpg
member18.jpg
member19.jpg
member20.jpg

member1.jpg

Ásta Kristín Pjetursdóttir

Ásta Kristín Pjetursdóttir fæddist í Reykjavík árið 1996. Þriggja ára gömul hóf hún víólunám við Suzuki-tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Söruh Buckley. Árið 2015 lauk hún framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Þórunnar Óskar Marinósdóttur og hélt síðan til Kaupmannahafnar þar sem hún stundar nú BA-nám við Konunglega tónlistarháskólann þar sem kennari hennar er Tim Frederiksen.

Hún hefur tekið þátt í ýmsum sumarnámskeiðum, svo sem Voksenåsen Sommerakademi, Harpa International Music Academy, Orkester Norden, Internationale Masterclass Apeldoorn og Skallsjö Sommarorkester. Hún hefur einnig sótt meistaranámskeið hjá heimsþekktum víóluleikurum á borð við Nobuko Imai og Lars Anders Tomter.

Árið 2015 sigraði Ásta Kristín í einleikarakeppni Tónlistarskólans í Reykjavík og lék í kjölfarið einleik með hljómsveit skólans. Hún hefur hlotið styrk úr tónlistarsjóði Rótarýs sem og Dansk-Islandsk fond og árið 2007 hlaut hún Hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir framúrskarandi árangur í tónlist.

Ásta hefur gegnt stöðu leiðara ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, uppfærslumanns í Orkester Norden, spilað með DUEN, The Danish Youth Ensemble, og er aukamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einnig hefur hún verið gestalistamaður Reykjavík Classics-tónleikaraðarinnar sem haldin er í Hörpu.

Ásta Kristín spilar á Guldbrand Enger-víólu, sem smíðuð var í Kaupmannahöfn árið 1866.

 

member2.jpg

Bára Gísladóttir

Bára Gísladóttir er tónskáld og kontrabassaleikari, búsett í Kaupmannahöfn. Hún leggur stund á meistaranám í tónsmíðum við Konunglega tónlistarháskólann þar sem kennarar hennar eru Jeppe Just Christensen og Niels Rosing-Schow. Þar áður nam hún tónsmíðar undir handleiðslu Gabrieles Manca við Verdi-akademíuna í Mílanó og í Listaháskóla Íslands hjá Hróðmari I. Sigurbjörnssyni og Þuríði Jónsdóttur. Þá nam hún kontrabassaleik undir leiðsögn Hávarðar Tryggvasonar er hún bjó enn á Íslandi og var fyrsti bassi í ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

 

Bára hefur gefið út tvær plötur; Different Rooftops árið 2015, með verkum fyrir rödd, tenórsaxófón, kontrabassa og rafhljóð, og B R I M S L Ó Ð árið 2016, verk í þremur hlutum fyrir kontrabassa og rafhljóð.

 

Tónlist Báru hefur verið leikin víða af sveitum á borð við Duo Harpverk, Elektru, Motocontrario, Mimitabu, NJYD, ReDo Quartet, Sinfóníuhljómsveit Helsingjaborgar og TAK Ensemble. Þá hafa verk hennar verið valin á hátíðir eins og Festival Mixtur, ManiFeste, Myrka músíkdaga, Norræna músíkdaga og Ung Nordisk Musik.

 

Bára leikur reglulega sína eigin tónlist, sjálf eða með Náttey, kammersveit sem hún stofnaði 2015. Þar að auki hefur hún leikið með sveitum og hópum á borð við Skark, S.L.Á.T.U.R. og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Jafnframt söng hún í Hamrahlíðarkórnum í tíu ár undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur og er bassaleikari í balkansveitinni Orphic Oxtra.

 

member3.jpg

Bjarni Frímann Bjarnason

Bjarni Frímann stundaði fiðlunám hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur. Hann lauk prófi í lágfiðluleik frá Listaháskóla Íslands 2009. Að því loknu stundaði hann nám í hljómsveitarstjórn undir handleiðslu Freds Buttkewitz við Hanns Eisler-tónlistarháskólann í Berlín.

 

Bjarni hefur m.a. stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Caput og Kammersveitinni í Bergen, BIT20. Hann samdi tónlist fyrir leikgerð Þorleifs Arnar Arnarssonar og Mikaels Torfasonar Vildanden + En folkefiende – Enemy of the Duck sem frumsýnd var á Ibsenhátíðinni í Ósló haustið 2016. Sama haust stjórnaði hann tvennum tónleikum Bjarkar í Hörpu á Iceland Airwaves.

 

Bjarni hefur verið ötull flytjandi stofutónlistar, bæði sem strengja- og píanóleikari, á tónlistarhátíðum hérlendis og víðsvegar um Evrópu. Þá hefur hann getið sér gott orð sem meðleikari með söngvurum og komið fram sem slíkur í Fílharmóníunni í Berlín, Wigmore Hall í Lundúnum og Konzerthaus í Vínarborg.

 

Árið 2009 fór Bjarni Frímann með sigur af hólmi í einleikarakeppni Listaháskóla Íslands og Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék í kjölfarið lágfiðlukonsert Bartóks með sveitinni á tónleikum. 2012 vann hann fyrstu verðlaun í Hanns Eisler-keppninni í Berlín fyrir píanóleik. Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016.

member4.jpg

Björg Brjánsdóttir

Björg Brjánsdóttir lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2012 undir handleiðslu Hallfríðar Ólafsdóttur og Magneu Árnadóttur og hélt þá áfram einleikaranámi við Tónlistarháskóla Noregs í Osló og Tónlistarháskólann í München. Þar hafa aðalkennarar hennar verið Per Flemström, Andrew Cunningham, Stephanie Hamburger og Natalie Schwaabe. Björg hefur komið fram með mörgum hljómsveitum og hópum, til að mynda Caput, Hljómsveit Íslensku óperunnar, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Neue Philharmonie München og Forsvarets stabsmusikkorps í Osló.

 

Björg er einnig lærður timanikennari eftir þriggja ára nám í Timaniakademíunni í Osló, og hefur kennt við Listaháskóla Íslands, Tónlistarháskólann í München og Tónlistarhátíð unga fólksins auk fjölda helgarnámskeiða og einkatíma. Hún hélt einnig erindi á alþjóðlegu ráðstefnunni Art in Motion – Training for Excellence í München sumarið 2016. 

member5.jpg

Bryndís Þórsdóttir

Bryndís er tuttugu og tveggja ára tónlistarnemi, búsett í Kaupmannahöfn. Hún stundar nám við Konunglega tónlistarháskólann þar og er á þriðja ári í hljómsveitar- og einleiksnámi á fagott á bakkalárstigi. Kennarar hennar eru Audun Halvorsen og Sebastian Stevensson, báðir fagotteinleikarar Dönsku útvarpshljómsveitarinnar.

 

Bryndís hefur verið aukamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá hausti 2013 og var á sex vikna samningi hjá hljómsveitinni haustið 2016 sem 2. fagott. Hún er einnig aukamaður hjá Dönsku útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Sjálands síðan 2016 og hefur spilað nokkrum sinnum með þeim. 

member 6.jpg

Emil Þorri Emilsson

Emil Þorri Emilsson slagverksleikari útskrifaðist frá Tónlistarskólanum á Akureyri árið 2012 og stundar nú framhaldsnám við Koninklijk Conservatorium í Den Haag, Hollandi.

 

Hann hefur m.a. leikið með ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ungsinfóníuhljómsveit Hollands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit Íslands auk þess að spila á trommusett í margskonar hljómsveitum.

 

Árið 2015 stofnaði hann ásamt Þorvaldi Halldórssyni slagverksdúettinn 100% ásláttur.

member7.jpg

Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir

Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir fæddist árið 1994. Árið 2013 lauk hún burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Gunnars Kvaran og Sigurgeirs Agnarssonar. Sem stendur er hún nemandi Hans Jensen við Northwestern University í Chicago og lýkur bakkalárprófi þaðan vorið 2017. Hún kemur reglulega fram bæði á Íslandi og í Chicago og hefur unnið til ýmissa verðlauna og komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

member8.jpeg

Guðbjartur Hákonarson

Fimm ára að aldri hóf Guðbjartur fiðlunám hjá Gígju Jóhannsdóttur við Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Seinna lærði hann undir handleiðslu Ara Vilhjálmssonar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þaðan fór hann til Guðnýjar Guðmundsdóttur við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist með diplómagráðu vorið 2014. Nú stundar Guðbjartur bakkalárnám við Indiana University, Jacobs School of Music, undir handleiðslu Sigurbjörns Bernharðssonar. Þá hefur hann sótt tíma og meistaranámskeið hjá Shmuel Ashkenasi, Ralph Kirshbaum, Idu Kavafian, Kazuhide Isamura, Elmar Oliveira, Ilya Kaler o.fl.

 

Á síðastliðnu ári kom Guðbjartur fram sem einleikari við ballettuppfærslu Jacobs School of Music, þar sem hann lék Fratres eftir Arvo Pärt. Einnig lék hann með einleikaranum Eric Silberger og Philip Setzer, meðlimi Emerson-kvartettsins. Guðbjartur vann Kuttner-kvartettkeppni Jacobs School of Music tvö ár í röð og hlaut heiðursstöðu við kvartett skólans auk Kuttner-styrks. Hann fékk einnig önnur verðlaun í WDAV-kammermúsíkkeppninni og sömuleiðis í Beethoven Haus-keppninni við Jacobs School of Music.

 

Guðbjartur hefur leikið víðsvegar á Norðurlöndunum með hljómsveitum á borð við Orkester Norden, Nordiska Ungdomsorkestern og SNOA og með íslensku strengjasveitinni Skark. Guðbjartur leikur á Joseph Bassot-fiðlu, smíðaða í París árið 1790.

 

 

 

member10.jpg

Halldór Bjarki Arnarson

Halldór Bjarki Arnarson fæddist 19. ágúst 1992. Hann lauk framhaldsprófi í hornleik vorið 2011 frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Kennarar hans voru Darren Stoneham, Anna Sigurbjörnsdóttir, Emil Friðfinnsson og Joseph Ognibene. Meðfram hornnáminu sótti hann píanótíma hjá Hauki Guðlaugssyni, Halldóri Haraldssyni og seinna Thomas Hell. Í júlí 2016 lauk hann fjögurra ára bakkalárnámi við tónlistarháskólann í Hannover með horn sem aðalfag undir handleiðslu Markusar Maskuniittys. Haustið 2014 bætti hann við sig námi í tölusettum bassa á sembal hjá Zvi Meniker, prófessor við sama skóla, og tók upp frá því virkan þátt í deild gamallar tónlistar þar.

 

Halldór hefur fengist við aðrar tónlistarstefnur að auki. Hann syngur og leikur á söguleg íslensk hljóðfæri í þjóðlagahljómsveitinni Spilmenn Ríkínís og kemur reglulega fram sem djass- og dægurlagapíanisti svo eitthvað sé nefnt. Halldór hefur þó nokkrum sinnum átt innlegg í sjóði nýrra íslenskra tónverka og hafa verk hans verið flutt við ýmis tækifæri, bæði á Íslandi og í Þýskalandi. Helstu leiðbeinendur hans í þeirri grein hafa verið Atli Heimir Sveinsson og John A. Speight. Halldór starfar nú sem málmblásturskennari við Tónlistarskólann á Akranesi.

 

member12.jpeg

Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir

Hrafnhildur hóf sellónám við Tónlistarskólann á Akureyri ung að árum. Að loknu framhaldsprófi þaðan lærði hún hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran við Listaháskóla Íslands og Morten Zeuthen við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Frá 2014 hefur Hrafnhildur stundað nám við Jacobs School of Music, Indiana University undir handleiðslu Brandons Vamos, sellóleikara Pacifica-strengjakvartettsins. Hún hefur sótt einkatíma og meistaranámskeið hjá Johannes Moser, Amir Eldan, Marcy Rosen, Alison Wells, Emile Naoumoff, Kurt Muroki o.fl.

 

Hrafnhildur hefur komið víða fram á tónlistarhátíðum innanlands og utan, leikið m.a. með Cleveland-sinfóníuhljómsveitinni, Richmond-sinfóníuhljómsveitinni, strengjasveitinni Skark, SNOA-hljómsveitinni í Gautaborg og Orkester Norden í sölum á borð við Konzerthaus í Berlín og Finlandia Hall. Hún hefur tekið upp fyrir Naxos-útgáfufyrirtækið undir stjórn Arthurs Fagens. Þá hlaut hún Premier Young Artist Award og Marcie Tichenor-skólastyrkinn. Í nóvember 2016 bar Hrafnhildur sigur úr býtum í einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskóla Íslands og lék í framhaldinu einleik með hljómsveitinni í Rókókótilbrigðum Tchaikovskys. Hrafnhildur leiddi sellódeild ungsveitar SÍ áður en hún hélt utan til náms og lék tvívegis í úrslitum Nótunnar. Hún leikur á Garavaglia-selló frá árinu 2011.

 

Hekla Finnsdóttir

Hekla er fædd árið 1995 og hóf fiðlunám 4.ára gömul. Þá lærði hún hjá Lilju Hjaltadóttur í Allegro Suzukitónlistarskólanum þangað til árið 2009 þegar hún byrjaði í Tónlistarskólanum í  Reykjavík undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Veturinn 2015 stundaði hún B.A. nám við Listaháskóla Íslands þar sem Sigrún Eðvaldsdóttir bættist við sem kennari hennar. Ári seinna færði hún sig um set og stundar nú Bachelor-nám við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn þar sem kennari hennar er Michael Malmgreen.

Hekla hefur sótt námskeið í Evrópu m.a. Tónlistarhátíð unga fólksins, Við djúpið, Danish Strings og Orkester Norden. Hún hefur spilað í masterklössum fyrir marga fiðluleikara en þar má nefna Linda Wang, Jorja Fleezanis, Danwen Jiang, Kurt Nikkanen, Mo Yi, Joseph Swensen, Ilya Gringolts og Ray Chen. Hekla tók einnig þátt í Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 2009-2015 og hefur tvisvar sinnum verið konsertmeistari þar. Einnig hefur hún gengt stöðu uppfærslumanns og leiðara í Orkester Norden.

Hekla spilar á fiðlu smíðaða af Ferdinand A. Homolka í Prag árið 1889.

member13.jpg

Ísak Ríkharðsson

Ísak Ríkharðsson fæddist 1993. Hann hóf fiðlunám þriggja ára gamall hjá Lilju Hjaltadóttur við Allegro Suzuki-tónlistarskólann og nam síðar við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem kennari hans var Auður Hafsteinsdóttir. Haustið 2008 hóf Ísak nám við Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Guðnýjar Guðmundsdóttur og sótti einnig tíma hjá Ara Vilhjálmssyni og Sigrúnu Eðvaldsdóttur innan skólans.

Ísak lauk BA-námi við Tónlistarháskólann í Zürich (ZHdK) á vorönn 2015 hjá Prof. Rudolf Koelman og stefnir að því að ljúka meistaranámi við sama skóla vorið 2017. Hann spilar reglulega með strengjasveit skólans, ZHdK Strings, bæði sem meðlimur og einleikari, á tónleikaferðum um Sviss, Ítalíu, Tyrkland og Taíland. Ísak hefur sótt námskeið og einkatíma hér heima sem og í Bandaríkjunum, Hollandi, Sviss og Spáni, hjá Löru Lev, Philippe Graffin, Lindu Wang, Baylu Keyes, Sigurbirni Bernharðssyni, Elfu Rún Kristinsdóttur, Oleh Krysa og Danwen Jiang auk annarra. Ísak tók þátt í námskeiði á vegum meistaradeildar Tónlistarháskólans í Gautaborg í hljómsveitarleik (SNOA) í nóvember 2012. Hann hefur verið lausráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2012 og Sinfóníuhljómsveitina í Liechtenstein frá 2013. Ísak vann einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og lék með henni 2. fiðlukonsert Prokofievs í janúar 2012. Hann hlaut verðlaun tónlistarsjóðs Rótarý á Íslandi árið 2017. 

Veturinn 2017 - 2018 mun Ísak taka þátt í mörgum verkefnum, bæði með Winterthurer Symphoniker, þar sem hann leiðir aðra fiðludeild, sem og strengjasveit Tónlistarháskólans í Zürich, ZHdK Strings, bæði í Sviss og á tónleikaferð um Ítalíu, en sveitin mun m.a. flytja útsetningar Ísaks á Cantabile eftir Paganini fyrir fiðlu og strengi og Meditation op. 42 nr. 1 eftir Tchaikovsky fyrir fiðlu, klarinett, hörpu og strengi.

member14.jpg

Matthías Ingiberg Sigurðsson

Matthías, fæddur 1990, er klarínettuleikari, raftónlistarmaður, tónskáld og sviðslistamaður. Hann hóf feril sinn ungur að aldri sem klassískur klarínettuleikari, sem spilaði auk klassíkurinnar tónlist af ýmsu tagi. Sem klassískur klarínettuleikari kom hann fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir að hafa unnið einleikarakeppni SÍ og LHÍ, Symphonisch Harmonieorkest Amsterdam og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Árið 2011 vann hann fyrstu verðlaun í alþjóðlegri klarínettukeppni á Kýpur.

 

Eftir að hafa lokið bakkalárgráðu í klassískum klarínettuleik 2013 í Conservatorium van Amsterdam hóf hann að læra nútímatónlist og skapandi samstarf við sama skóla í námi sem nefnist Profile Contemporary Music. Þar hlaut hann reynslu í ýmsum fjölstílasamstarfsverkefnum sem oft innihéldu rafhljóð og leiklist. Því næst hóf hann meistaranám í flutningi á lifandi raftónlist þar sem hann lærði að nota forritin Max MSP og Ableton Live í tónlistariðkun sinni með klarínettu og söng. Meðfram námi hefur hann komið fram í atvinnuuppfærslum á tónleikhúsverkum svo sem The Call eftir Felipe Ignacio Noriega, sem var sýnt á An Evening of Today með Nieuw Ensemble í Muziekgebouw aan ‘t IJ og Amsterdam Fringe Festival 2014; og (Not Only) Futurists eftir Jerzy Bielski, sem var sýnd á Gaudeamus Muziekweek og Amsterdam Fringe Festival 2015, og hlaut verðlaun fyrir bestu sýningu Amsterdam Fringe.

 

Matthías er meðlimur súrrealísku lúðrapoppsveitarinnar Molino, en þar sér hann um að semja lög, spila á klarínettu, rafhljóð og syngur. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu, Tales from Elsewhere, í janúar 2016. Molino kom fram á fjölda tónlistarhátíða árið 2016 í Hollandi og gaf nýverið út tónlistarmyndband við lag sitt Stupid things. Önnur plata hljómsveitarinnar er væntanleg á sumri komanda.

 

Matthías sækir innblástur í margvíslegt fjölstílasamstarf og skrifaði meistararitgerð sína um samstarfsaðferðir. Upp á síðkastið hefur hann unnið að sólóverkefni sínu, þar sem hann tvinnar klarínettuleik, söng og spuna saman við taktgerð og lifandi raftónlist.

member15.jpg

Pétur Björnsson

Pétur Björnsson fæddist á Akranesi árið 1994. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 2014. Pétur útskrifaðist með framhaldspróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík haustið 2015 en kennarar hans þar voru Guðný Guðmundsdóttir og Ari Þór Vilhjálmsson. Frá og með sama hausti hefur hann stundað nám við Tónlistarháskólann í Leipzig undir handleiðslu Elfu Rúnar Kristinsdóttur.

 

Pétur hefur verið varamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2012 og er virkur meðlimur í strengjasveitinni Skark frá árinu 2013. Þá hefur hann leikið með Ensemble KONTRASTE-hljómsveitinni í Nürnberg. Pétur hefur gegnt stöðu konsertmeistara í nemendahljómsveitum Tónlistarskólans í Reykjavík, ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og háskólahljómsveitinni í Leipzig. Hann kom fram sem einleikari með hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík haustið 2014 þegar hann lék fiðlukonsert Dvoráks og með Stradivari Ensemble í Vancouver í febrúar 2016 þar sem hann lék Rondo Capriccioso eftir Saint-Saëns.

 

Pétur hefur sótt ýmis námskeið bæði á Íslandi og erlendis og meistaranámskeið hjá tónlistarmönnum í fremstu röð. Þar má nefna Christian Tetzlaff, Ilya Gringolts, Carolin Widmann, Jorja Fleezanis, Philippe Graffin, Sergei Ostrovsky, Robert Rozek og Mariönu Sirbu.

 

 

member16.jpg

Rakel Björt Helgadóttir

Rakel Björt hóf hornnám níu ára gömul við Tónlistarskóla Seltjarnarness þar sem kennari hennar var lengstum Anna Sigurbjörnsdóttir. Árið 2007 hóf Rakel nám við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Josephs Ognibenes og lauk þaðan burtfararprófi vorið 2012. Sama haust lá leið hennar til Þýskalands þar sem hún hóf nám við Folkwang-listaháskólann í Essen. Frá vormánuðum 2014 hefur Rakel stundað nám við Listaháskólann í Berlín en þar hefur hún notið leiðsagnar kennara á borð við Ozan Çakar, Přemysl Vojta, Prof. Christian-Friedrich Dallmann og Sebastian Posch. Rakel hefur að auki sótt fjölda meistaranámskeiða, meðal annars hjá Frøydis Ree Wekre, Radovan Vlatković, Prof. Thomas Hauschild o.fl.

 

Rakel hefur verið aukamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan vorið 2012 en auk þess hefur hún leikið sem aukamaður með þýskum hljómsveitum á borð við Deutsche Symphonieorchester Berlin, Kammerphilharmonie Wernigerode og Berliner Sinfonietta. Rakel er meðlimur í c/o chamber orchestra.

member17.jpg

Rannveig Marta Sarc

Rannveig Marta Sarc fæddist 1995 í Slóveníu og hóf fiðlunám fjögurra ára. Árið 2006 flutti hún til Íslands og gerðist nemandi Lilju Hjaltadóttur við Allegro Suzuki-tónlistarskólann. Rannveig lauk framhaldsprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 2014 undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttur en þar sótti hún einnig lágfiðlutíma hjá Þórunni Ósk Marinósdóttur. Nú er Rannveig á þriðja ári í bakkalárnámi við Juilliard-skólann í New York, þar sem hún er nemandi Laurie Smukler.

 

Rannveig hefur unnið margar keppnir, má þar helst nefna TEMSIG – slóvenska tónlistarkeppni fyrir ungmenni, Nótuna og Unga einleikara. Rannveig hefur komið fram sem einleikari með hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík, Slóvensku fílharmóníunni, tvívegis með Sinfóníuhljómsveit Íslands og næsta vor leikur hún Brahms-fiðlukonsertinn með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Rannveig hefur gríðarlegan áhuga á kammertónlist; hún hefur komið fram með Cammerarctica á tónleikaröð þeirra Mozart við kertaljós og í haust var strengjakvartett hennar valinn heiðurskvartett í Juilliard. Með honum mun Rannveig koma fram meðal annars í Alice Tully Hall og Carnegie Hall. Rannveig hefur sótt ýmis alþjóðleg námskeið, þar á meðal the Kneisel Hall Chamber Music Festival, NAC – Young Artists Program, Heifetz Institute, Sarasota Music Festival, Tónlistarhátíð unga fólksins og Alþjóðlegu tónlistarakademíuna í Hörpu. Kennarar hennar voru meðal annars Pinchas Zukerman, Ronald Copes, Elmar Oliveira, Sibbi Bernharðsson, Ari Þór Vilhjálmsson, Ilya Kaler og Grigory Kalinovsky. 

member18.jpg

Sólveig Vaka Eyþórsdóttir

Sólveig Vaka Eyþórsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1994 og hóf fiðlunám átta ára gömul. Aðalkennarar hennar voru Ari Þór Vilhjálmsson í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Guðný Guðmundsdóttir í Listaháskóla Íslands. Frá og með hausti 2016 stundar Sólveig Vaka bakkalárnám við Tónlistarháskólann í Leipzig, þar sem hún er nemandi Erichs Höbarths.

 

Sólveig Vaka hefur spilað með ýmsum tónlistarhópum á Íslandi, þar á meðal Caput og strengjasveitinni Skark. Hún spilaði einnig í mörg ár í nemendahljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og gegndi stöðu konsertmeistara í báðum hljómsveitum. Sólveig Vaka lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 2014 og hefur allt frá byrjun náms síns þar sungið með Hamrahlíðarkórunum undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

 

Sólveig Vaka hefur sótt ýmis einleiks- og kammermúsíknámskeið á Íslandi og víðsvegar um heiminn og má þar helst nefna Indiana University Summer String Academy, Madeline Island Music Camp og International Summer Academy Bad Leonfelden. Meðal fiðluleikara sem hún hefur sótt tíma hjá eru Leon Spierer, Ingolf Turban, Tanja Becker-Bender, Kurt Nikkanen, Ilya Gringolts, Sigurbjörn Bernharðsson og David Gillham. Sólveig Vaka spilar á fiðlu smíðaða af Hans Jóhannssyni árið 2011. 

member19.jpg

Sólveig Steinþórsdóttir

Sólveig Steinþórsdóttir stundar fiðlunám við listaháskólann í Berlín. Hún hóf fiðlunám þriggja ára gömul hjá Lilju Hjaltadóttur við Allegro Suzuki-tónlistarskólann. Á árunum 2008-2013 var hún nemandi Guðnýjar Guðmundsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík. Frá hausti 2014 hefur hún stundað nám við Listaháskólann í Berlín, Universität der Künste Berlin, undir handleiðslu Eriku Geldsetzer. Sólveig hefur sótt fjölda meistaranámskeiða hér heima og erlendis, m.a. í Þýskalandi, Sviss, Bandaríkjunum, Hollandi og á Ítalíu. Hún hefur spilað fyrir marga virta fiðluleikara, þar á meðal Christian Tetzlaff, Ulf Hoelscher, Roland Vamos og Philippe Graffin. Sólveig lék einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands á jólatónleikum árin 2009 og 2011 og á tónleikunum Ungir einleikarar árið 2013. Ennfremur kom hún fram sem einleikari með hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík árið 2010, á hátíðartónleikum Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu árið 2013, á lokatónleikum Internationale Sommerakademie Cervo á Ítalíu árið 2015 og 2016 og með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins 2015. Í mars 2016 sótti Sólveig námskeið í Neustadt an der Weinstraße hjá Sebastian Schmidt og tók þar þátt í fiðlukeppni á vegum námskeiðsins og hlaut 2. verðlaun. Í ágúst 2016 kom hún fram á opnunartónleikum Tónlistarhátíðar unga fólksins þar sem leikin voru verk fyrir fiðlu og selló, í kjölfar tónleikakeppni hátíðarinnar. Í mars 2017 mun hún koma fram á opnunartónleikum tónlistarhátíðar í Neustadt an der Weinstraße sem verðlaunahafi ársins á undan.

member20.jpg

Steiney Sigurðardóttir

Steiney Sigurðardóttir fæddist árið 1996. Hún hóf sellónám fimm ára gömul hjá Örnólfi Kristjánssyni og var nemandi hans í átta ár við Suzuki-tónlistarskólann í Reykjavík og Tónskóla Sigursveins. Hún lauk framhaldsprófi vorið 2012 undir handleiðslu Gunnars Kvaran, 16 ára gömul. Í námi sínu við Tónskóla Sigursveins fékk Steiney sérstök verðlaun fyrir hæstu einkunn á miðstigi og sjötta stigi. Frá áramótum 2013 til ársins 2015 var hún nemandi Sigurgeirs Agnarssonar við Listaháskóla Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún útskrifaðist með burtfararpróf. Steiney hlaut styrk Halldórs Hansen fyrir burtfararprófið.

 

Steiney hefur sótt fjölda námskeiða og má þar helst nefna Tónlistarakademíuna í Hörpu, Meadowmount School of Music, Green Mountain Chamber Music Festival, Astona International, International Music Academie Cervo og Cello Akademie Rutesheim. Steiney hefur spilað í opnum tímum hjá Erling Blöndal Bengtsson, Clive Greensmith, Bryndísi Höllu Gylfadóttur, Marko Ylönen, Troels Svane og Wenn Sin Yang.

 

Steiney hefur oft komið fram með hljómsveitum. Árið 2014 spilaði hún einleikskonsert Saint-Saëns á hátíðartónleikum Tónlistarskólans í Reykjavík til minningar um Ragnar í Smára eftir að hafa unnið HTR-keppni skólans. Árið 2015 spilaði hún sellókonsert Elgars með Sinfóníuhljómsveit Íslands á hinum árlegu tónleikum Ungir einleikarar eftir að hafa sigrað í einleikarakeppni SÍ og Listaháskóla Íslands. Einnig tók hún tvisvar þátt, fyrir hönd Tónskóla Sigursveins, í Nótunni í einleiksflokki á framhaldsstigi.

 

Síðastliðið sumar vann Steiney ásamt vinkonu sinni, Sólveigu Steinþórsdóttur fiðluleikara, tónleikakeppni Tónlistarhátíðar unga fólksins og héldu þær dúótónleika á opnunartónleikum hátíðarinnar.


Steiney hefur verið virk í hljómsveitarstarfi hérlendis og erlendis og hefur til að mynda tekið þátt í starfi Orkester Norden og leitt sellódeild Ungfóníunnar og ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Síðastliðið ár hefur hún verið lausráðin hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og einnig spilað með Württembergische Philharmonie Reutlingen. Á síðasta ári flutti Steiney út fyrir landsteinana og stundar nú nám við Tónlistarháskólann í Trossingen í Þýskalandi undir handleiðslu Francis Goutons.